Reglur leikskóla Fljótsdalshéraðs

  • Leikskólar Fljótsdalshéraðs starfa samkvæmt lögum um leikskóla, reglugerðum sem varða starfsemi leikskóla, stefnu sveitarfélagsins, aðalnámskrá leikskóla og skólanámskrá hvers skóla.
  • Foreldrum ber að tilkynna leikskólanum um breytingar á högum sínum, s.s.hjúskaparstöðu, heima- og vinnusíma.
  • Leikskólagjöld eru innheimt með greiðsluseðli í heimabanka eða greiðslukorti. Greiða skal fyrirfram og er eindagi 16. hvers mánaðar, eftir eindaga leggjast á dráttarvextir. Ef um þriggja mánaða vanskil er að ræða er rekstraraðila heimilt að segja upp leikskólasamningi með mánaðar fyrirvara að undangenginni ítrekun.
  • Leikskólarnir Hádegishöfði og, Tjarnarskógur loka í 4 vikur á sumrin og falla þá leikskólagjöld niður. Leikskóladeildin í Brúarási er lokuð á sumarleyfistíma grunnskólans og falla leikskólagjöld niður þann tíma. Þegar leikskóladeildin í Hallormsstaðaskóla er starfrækt lokar hún a.m.k. 4 vikur á sumrin. Heimilt er að veita lengra gjaldfrítt sumarleyfi fyrir eða í beinu framhaldi af sumarlokun leikskóla. Beiðni um slíkt þarf að berast leikskólastjóra fyrir þann tíma sem leikskólastjóri tilkynnir hverju sinni. Ef nemandi er fjarverandi 5 virka daga samfellt eða lengur, vegna veikinda eða fría, er hægt að sækja um niðurfellingu fæðiskostnaðar. Sótt er um niðurfellingu fæðisgjalda til leikskólastjóra með fyrirvara. Leikskólinn er lokaður á aðfangadag og gamlársdag. Skipulags- og námskeiðsdagar leikskólans eru 5 á ári og er leikskólinn lokaður þá daga og þeir auglýstir með að a.m.k. mánaðar fyrirvara.
  • Mikilvægt er að nemandinn mæti vel og stundvíslega í leikskólann. Foreldrar skulu tilkynna ef nemandi er fjarverandi vegna veikinda eða fría.
  • Foreldrum er skylt að virða þann tíma sem leikskólasamningur segir til um. Umsaminn skólatími tekur mið af komu- og brottfarartíma nemanda í og úr skóla þ.e. ef nemandi á skólatíma frá 9:00 til 14:00 er miðað við að hann mæti í skólann í fyrsta lagi klukkan 9:00 og hafi yfirgefið skólann í síðasta lagi klukkan 14:00.
  • Óski foreldrar eftir breytingu á skólatíma nemandans eða fæðiskaupum sækja þeir um það hjá leikskólastjóra á þar til gerðum eyðublöðum. Sækja skal um breytingar með fyrirvara.
  • Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er einn mánuður og miðast við 1. eða 15. hvers mánaðar. Uppsagnareyðublöð eru hjá leikskólastjóra.
  • Foreldrum ber að tilkynna skólanum um hverjar þær aðstæður barnsins sem taka þarf sérstakt tillit til.