Samkvæmt 11. gr. laga um leikskóla frá árinu 2008 er leikskólum skylt að starfrækja foreldraráð.

Foreldraráð leikskólanna á Fljótsdalshéraði unnu saman eftirfarandi skilgreiningu, reglur og viðmið fyrir leikskólana sem gilda fyrir alla leikskóla sveitarfélagsins.

Foreldraráð – Fljótsdalshérað

Foreldraráð

Kjósa skal foreldraráð við leikskóla og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningu í ráðið. Í foreldraráði sitja að lágmarki þrír foreldrar. Skal kosning til foreldraráðs fara fram í september á ári hverju og skal kosið til eins árs í senn. Foreldraráð setur sér starfsreglur. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði. Leikskólastjóri getur sótt um undanþágu til sveitarfélags um stofnun foreldraráðs ef gildar ástæður eru fyrir hendi, svo sem vegna fámennis í leikskóla. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar, sbr. 2. mgr. 4. gr., um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi. (Lög um leikskóla:2008)

Starfsreglur foreldraráða leikskóla á Fljótsdalshéraði:

Leikskólastjóri kallar ráðið saman til fyrsta fundar fyrir 1. október ár hvert.

Foreldraráðið ákveður fastan fundartíma einu sinni í mánuði og aukafundir eru haldnir ef þurfa þykir s.s. þegar foreldraráð allra leikskólanna funda saman – a.m.k. einu sinni fyrir jól og einu sinni eftir jól.

Fundargerðir skulu birtar á vef skólans.

Ráðið getur kallað til aðra foreldra eða starfsmenn á fund eða til að vinna ákveðin verkefni eftir þörfum hverju sinni.

Foreldraráðin á Fljótsdalshéraði eiga einn sameiginlegan áheyrnarfulltrúa á fundi fræðslunefndar Fljótsdalshéraðs.

Hlutverk foreldraráðs í leikskólum á Fljótsdalshéraði:

Ráðið gefur umsagnir um skólanámskrár og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans.

Ráðið fylgist með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og fylgist jafnframt með kynningu þeirra fyrir foreldrum.

Ráðið hefur umsagnarrétt um allar meiriháttar breytingar á skólastarfinu.

Ráðið hlustar eftir röddum foreldra og kemur ábendingum í réttan farveg.