Nægjusamur nóvember

Hádegishöfði er skóli á grænni grein. Hér á heimasíðunni er hægt að nálgast nýjustu útgáfu Grænfánaskýrslu skólans. Megin áherslur okkar þetta tímabil eru að vinna með átthaga og landslag auk neyslu og úrgangur.
Hvað er átt við með átthagar?
Átthagar eru það umhverfi, náttúra og samfélag sem tilheyrir heimabyggð okkar. Hægt er að skipta átthögum gróflega í nærumhverfi annars vegar og nærsamfélag hins vegar. (Tekið af heimasíðu landvernd.is)
Hugrenningar er varðar neyslu og úrgang:
Hverjar eru raunverulegar þarfir okkar? Þurfum við allan þennan mat, föt, hluti? Hvaðan kemur þetta allt? Er þetta framleitt á Íslandi eða annars staðar? Hvað verður um það sem við erum hætt að nota? Getum við minnkað neyslu okkar? (Tekið af heimasíðu landvernd.is)
 
 1. nóvember hefst hvatningarátak Landverndar; Nægjusamur nóvember. Nóvember er neysluríkasti mánuður ársins með sínum svarta föstudegi, netmánudegi og degi einhleypra. Nægjusamur nóvember er mótsvar við neysluhyggju og hugmyndinni um að okkur vanti stöðugt eitthvað.
 
Nægjusemi er hugarfarsbreyting sem er ókeypis og skilar strax árangri. Nægjusemi er nauðsynleg, hún er jákvæð og á að vera eitt af leiðarljósum okkar til betri framtíðar. Nægjusemi er áhrifamikil, fljótvirk og ódýr leið til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda, ósjálfbæra nýtingu auðlinda og jafnvel ójöfnuð.
 
Fyrir okkur sem fáum nóg að borða, föt, húsaskjól og búum við heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika þýðir nægjusemi ekki afturhvarf til fortíðar, að fórna einhverju eða lifa við skort. Þess í stað er það tækifæri til þess að einbeita okkur að því sem veitir raunverulega gleði, hamingju og gildi í lífinu. Þannig getum við spurt okkur hvort við höfum raunverulega þörf fyrir hlutina og hættum einfaldlega að kaupa hluti sem við þurfum ekki.
 
Við hvetjum ykkur öll til að taka þátt í átakinu með því að spyrja ykkur hvort ykkur vanti það sem er verið að hvetja ykkur til að kaupa.
Er ekki skemmtilegra að eyða tíma saman sem fjölskylda til að skapa ómetanlegar minningar sem ekki þurfa að kosta neitt og eru verndandi fyrir náttúruna?